Ársskýrsla UMFÞ.

Aðalfundur Þróttar fór fram í gærkvöldi.

Ungmennafélagið Þróttur var stofnað árið 1932 og varð félagið 85 ára þann 23. október 2017. Félagið er eitt fárra félaga á landinu með beina aðild að UMFÍ. Það getur verið flókið að starfa innan íþróttafélags og er oft erfitt að manna stöður innan félaganna. Sveitarfélagið Vogar hefur á síðustu árum tekið miklum breytingum með fjölgun íbúa og er oft erfitt að snúa sér frá sínu gamla félagi til að fara að styðja nýtt félag. Margir þeirra sem koma að starfinu hjá Þrótti hafa stutt önnur félög áður. Við getum því verið mjög stolt af árangri okkar þar sem okkur hefur tekist að byggja upp gott starf sem allir geta verið stoltir af. Auk þess erum við farin að sjá aðra kynslóð Þróttara koma til starfa hjá félaginu, aðilar sem hafa verið Þróttarar allt sitt líf. Félagið hefur vaxið og dafnað síðustu ár, velta og umsvif hafa líklega aldrei verið meiri en á síðastliðnu ári. Við eigum sífellt fleiri Þróttara sem eru að standa sig í sínum greinum og eru félaginu ætið til sóma.

 

 

Ég vil þakka öllum Þrótturum, iðkendum, starfsmönnum og sjálfboðaliðum sérstaklega fyrir þeirra framlag því án þeirra væri starfsemin ekki eins glæsileg og raun ber vitni. Það er alls ekki sjálfgefið að fólk gefi sér tíma til sjálfboðastarfa og það ber því að þakka.

 

 

Afkoma UMF. Þróttar á árinu 2017 var góð. Þetta er flott framhald af árinu 2016 þar sem einnig var góður rekstur hjá félaginu. Fjárhagsstaða félagsins er traust og félagið er skuldlaust, við erum vel í stakk búin til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Hjá íþróttafélögum er það markmið að halda sér réttu megin við núllið, það er hins vegar staðreynd að reksturinn getur verið mjög sveiflukenndur og afkoman getur sveiflast mikið á milli ára. Við verðum að geta mætt slíkum sveiflum og lítum við á það sem eitt af meginverkefni aðalstjórnar félagsins að takast á við slíkar sveiflur og halda rekstri félagsins í jafnvægi.

 

 

Eins og komið var inn á þá eru meginverkefni aðalstjórnarinnar fjármál félagsins í heild, stefnumótun og samræming á starfseminni. Aðstöðumál félagsins hafa einnig tekið mikinn tíma á síðustu árum þar sem við viljum iðkendum okkar það besta. Áhugi á starfi félagsins hefur vaxið mikið og er sífellt að vaxa. Ég vil hvetja alla til stuðnings við iðkendur okkar þar sem hann er svo ómetanlega mikilvægur fyrir iðkendur sem og þá sem vinna fyrir félagið.

 

 

 

Íþróttaskóli barna á laugardögum hefur tekið miklum breytingum til hins betra. Ráðnir voru reynslumiklir leiðbeinendur og hefur það skilað sér í mikilli aukningu þátttakenda.

 

 

Sundstarfið er í farsælum farvegi hjá okkur. Iðkendum fjölgaði all verulega haustið 2015 og æfa í dag 25 börn sund hjá Þrótti. Nýr þjálfari tók til starfa í haust og hefur staðið sig vel í áframhaldandi uppbyggingarstarfi sunddeildarinnar. Mikill kraftur er í öllum sem koma að sundinu. Ber þá helst að nefna þátttöku foreldra sem styðja mjög vel við börnin sín. Gríðarlega gott orð fer af deildinni og þá sérstaklega foreldrum sem láta vel í sér heyra af pöllunum.

 

 

 

Þróttur eignaðist Íslandsmeistara í júdó eftir nokkurra ára bið. Flestir Þróttarar þekkja sögu júdó í Vogunum enda fjölmargir titlar sem hafa skilað sér í hús. Því miður hefur júdóið átt undir högg að sækja síðustu ár. Færri iðkendur í júdóinu veldur því að greinin er rekin með tapi þrátt fyrir gott starf og þjálfara sem sinnir þessu af mikilli ástríðu. Í dag eru 20 iðkendur sem æfa júdó í tveimur aldursflokkum. Á síðastliðnum vetri var gerð tilraun með krílajúdó og heppnaðist það vel.

 

 

 

 

Mikill kraftur var í barna og unglingastarfinu í knattspyrnu á síðastliðnu ári. Þróttur hélt úti flokkum í 8. Flokki blandað, 7. flokki karla og kvenna, 6. flokki karla og 5. flokki karla og kvenna. Einnig var stofnað til samstarfs við RKV í 3. flokki kvenna og Reyni/Víði í 4. flokki karla.

 

 

 

Þróttarar tóku þátt í öllum stærri sumarmótum ársins og ber helst að nefna Orkumótið í Eyjum, N1 mótið á Akureyri, Norðurálsmótið á Skipaskaga og Símamót Breiðabliks.

 

 

Þróttarar réðu yfirflokkaþjálfara fyrir starfsárið 2016-17 og fjölgaði þjálfurum. Markmiðið var að efla starfið og bæta faglega þáttinn. Á sama tíma fækkaði iðkendum í knattspyrnu og varð það okkur mikið áfall að geta ekki nýtt okkur meðbyrinn í velgengni Íslands í karla- og kvennalandsliðunum okkar og var starfið lagt niður í haust. Haustið er að gefa okkur góð fyrirheit og hefur fjölgað að nýju í yngri flokkunum. Hvort það sé landsliðunum, árangri meistaraflokks Þróttar eða fjölgun barna í sveitarfélaginu að þakka vitum við ekki.

 

Leikjum yngri flokka Þróttar fjölgaði á Vogabæjarvelli síðustu ár. Því miður er erfitt að finna félagsmenn til að sinna dómgæslu í yngri flokkum. Meistaraflokkur félagsins og vallarstarfsmenn tóku verkefnið að sér og oft með stuttum fyrirvara. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. En dómaramál eru að verða vandamál hjá okkur sem okkur er ekki að takast að leysa. Til að reyna að sporna við þessu hefur Þróttur boðið upp á námskeið án endurgjalds. Vonumst við til að fleiri sjái sér fært að aðstoða félagið á komandi sumri við dómgæslu.

 

 

 

Þróttur hélt leiklistarnámskeið í byrjun árs og heppnaðist það vel. Ákveðið var að fara af stað með stofnun leiklistardeildar. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð á samfélagsmiðlum þá skilaði það sér ekki á stofnfund leiklistardeildar og því féll verkefnið um sjálft sig.

 

 

Þróttur Vogum ætlar sér stærri hluti í því að efla heilsu íbúa sveitarfélagsins og um leið fjölga félagsmönnum. Boðið var upp á badmintontíma íbúum sveitarfélagsins að kostnaðarlausu. Einnig auglýsti félagið eftir áhugasömum aðila þriðja árið í röð til að halda utan um skokkhóp en hafði ekki erindi sem erfiði.

 

 

Í byrjun árs var framkvæmdastjóra falið að finna þjálfara til að halda utan um stofnun þrekhóps. Fékk verkefnið heitið Vogaþrek og hefur verkefnið farið vel á stað og 18 bæjarbúar skráðir til leiks á öllum aldri. Ungmennafélagið er ekki bara fyrir börnin okkar. UMFÞ er líka fyrir fólk á öllum aldri.

 

 

Strandarhlaupið fór fram fimmta árið í röð. Góð þátttaka var í hlaupinu og kunnum við öllum þeim sjálfboðaliðum og styrktaraðilum miklar þakkir fyrir þeirra aðstoð í aðdraganda hlaupsins.

 

 

Þróttur Vogum hélt utan um Hverfaleika í tengslum við bæjarhátíð sveitarfélagsins. Heppnaðist verkefnið með miklum sóma.

 

 

Foreldrafélag Þróttar hefur legið niðri síðustu árin og var endurvakið síðla haust. Byrjunin lofar góðu. Einnig hafa verið haldnir foreldrafundir í öllum flokkum. Það var okkur mikið áhyggjuefni hversu marga foreldra vantaði í sumum greinum eða flokkum.

Foreldrahandbókin sem gerð var árið 2011 var haldið hátt á lofti á síðasta ári. Er þetta handbók þeirra sem koma að starfi Þróttar og þar eru að finna mörg svörin við ýmsum spurningum sem snerta félagið. Heimasíðan var einnig uppfærð og þar er hægt að fá allar upplýsingar varðandi þjálfara, æfingatíma og tryggingarmál iðkenda.

 

 

 

Mikill kraftur hefur verið í knattspyrnudeild Þróttar síðustu árin. Ber helst að nefna árangur Þróttar í 3. deild sem tryggði þeim sæti deild ofar 2018. Einnig hefur deildin rekið félagsstarf á laugardögum með miklum sóma. Árið 2016 fékk Þróttur framlag úr EM-sjóði KSÍ að upphæð 3.014.000kr. Knattspyrnudeild Þróttar sendi inn formlegt erindi og óskaði eftir því að fá helming EM framlagsins til tækjakaupa vegna Vogabæjarvallar.

 

 

 

 

Framkvæmdastjóri félagsins er eins og áður Marteinn Ægisson, en hann hefur einnig sinnt daglegum rekstri, fjármálastjórn félagsins undanfarin ár og hefur staðið sig vel. Ber helst að verkefnum hefur fjölgað frá því sem áður var og fer hann nýjar leiðir í leit af þjálfurum, er gríðarlega metnaðarfullur fyrir félaginu, setur mikla pressu á sjálfan sig og þrátt fyrir að hlutirnir gangi ekki alltaf upp þá heldur hann alltaf áfram.

 

 

Fjölgun stærri styrktaraðila hefur styrkt rekstur okkar og aðstoðað okkur mikið í baráttunni um að fá þjálfara til starfa hjá okkur. Það er ekkert leyndarmál að æfingagjöld dekka einungis 60 – 70 % launa þjálfara, því er mikilvægt að eiga góða styrktaraðila.

Hjá félaginu starfa frábærir þjálfarar og eru þeir: Arnar Már júdó, Margrét Lilja sund, Bryndís íþróttaskóli, Hólmfríður íþróttaskóli, Elvar Freyr knattspyrna, Helga Sif knattspyrna, Sólrún knattspyrna og Daníel með Vogaþrek. Kunnum við þeim öllum miklar þakkir fyrir gott starf. Þróttur Vogum bauð öllum þjálfurum félagsins að sækja þjálfaranámskeið. Einnig hélt félagið skyndihjálparnámskeið í Vogum fyrir alla þjálfara og foreldra úr öllum deildum félagsins. Félagið ætlar sér stærri hluti í fræðslumálum innan félagsins og stendur til að halda fararstjóranámskeið og standa fyrir fyrirlestrum fagaðila sem gæti mögulega styrkt okkar starfsemi.

 

 

 

Fulltrúar UMFÍ fóru til Danmerkur á síðasta ári til að taka út landsmót DHI. Fulltrúar UMFÞ í ferðinni voru formaður og framkvæmdastjóri Þróttar. Teljum við sem sitjum í stjórn Þróttar að mikilvægt sé að taka þátt í hreyfingunni og hefur félagið staðið sig vel í því átaki undanfarin ár.

 

 

 

 

Það eru mörg áhugaverð og skemmtileg verkefni framundan. Meginmarkmið og tilgangur félagsins er áframhaldandi uppbygging Þróttar, efling barna- og unglingastarfs í góðri samvinnu sjálfboðaliða, foreldrafélaga og næsta umhverfi félagsins í Vogum. Við viljum tryggja að börnin okkar hafi aðgang að góðri þjálfun í góðum félagsskap og hjá félagi sem þau og við erum stolt af. Þetta er besta forvarnarstarf sem til er. Við erum og eigum að vera stolt af félaginu okkar.

 

 

 

Að lokum langar mig að þakka Sveitarfélaginu Vogum fyrir þann mikla stuðning sem það veitir félaginu og öllum þeim styrktaraðilum sem styrkja félagið með fjárframlögum sem auðvelda okkur okkar starf. Án ykkar væri þetta ekki hægt.

 

 

 

Baldvin Hróar Jónsson
formaður UMF.Þróttar.

Formaður flytur sína fyrstu ræðu...

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Þú mátt nota þessi HTML efnisorð og eiginleika: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>

Færslusafn