Foreldrahandbók

Inngangur
Í foreldrahandbókinni er farið yfir helstu atriði sem snerta foreldra iðkenda UMFÞ.  Upplýsingar um hvert á að leita innan félagsins vegna ýmissa mála ásamt ábendingum um hvernig foreldrar geta komið að starfi félagsins.

Ef frekari spurningar vakna er hægt að leita til framkvæmdarstjóra félagsins.

Skáning

Skráning iðkanda fer fram á skrifstofu félagsins í upphafi æfingatímabils. Eftir það er hægt að skrá börn hjá framkvæmdastjóra, með tölvupósti eða á skrifstofu. Ef iðkandi sem ekki er skráður mætir á æfingar hefur framkvæmdastjóri  samband við forráðamenn og lætur þá vita svo þeir geti skráð iðkandann. Með skráningu er iðkandi orðinn meðlimur í UMFÞ og getur byrjað æfingar.

Í upphafi tímabils er hægt að prófa æfingar í tvær vikur án skráningar. Þegar æfingatímabilið er byrjað má iðkandi mæta í eina viku áður en framkvæmdarstjóri hefur samband. Iðkandi sem ekki er skráður fær ekki að keppa á mótum sem liðið fer á.

Stærstur hluti samskipta milli foreldra og þjálfara sem og milli foreldra og félagsins fer fram í gegnum tölvupóst eða blogg flokkanna. Því er mikilvægt að foreldrar skrái virkt netfang þegar barn þeirra er skráð.

Hægt er að greiða æfingagjöld með greiðslukorti, með millifærslu eða koma á skrifstofu Þróttar og ganga frá greiðslunni hjá starfsmönnum félagsins. Einnig er hægt að fá senda greiðsluseðla í heimabanka. Í upphafi tímabils er hægt að skipta greiðslum í 10 gjalddaga frá 15. okt. – 15. júlí. Eftir það er hægt að dreifa greiðslum þannig að síðasti gjalddagi verðir eigi síðar en 15. júlí.

Iðkendur taka þátt í ýmis konar fjáröflun vegna móta. Peningar sem fást fyrir fjáröflun eru lagðir inn á reikning hjá hverju barni sem aðeins forráðamaður getur tekið út af. Skráning hjá UMFÞ jafngildir samþykki fyrir því að slíkur bankareikningur sé stofnaður nema annað komi fram við skráningu.

Upplýsingar um þjálfara/æfingatíma

Upplýsingar um þjálfun og æfingartíma eru á bloggsíðu flokkanna sem hægt er að komast á í gegnum heimasíðu félagsins. Þar eru allar breytingar tilkynntar. Fastir æfingatímar eru gefnir upp á heimasíðu félagsins www.throttur. net. Einnig er hægt að hafa samband við framkvæmdarstjóra í sína 866-1699 eða þjálfara flokkana í síma.

Á heimsíðu félagsins sem og hjá þjálfara og yfirþjálfara er einnig hægt að fá upplýsingar um stefnu félagsins varðandi þjálfun í öllum flokkum. Lögð er rík áhersla á að hafa samræmdan ramma milli flokka þannig að starf verði eins ánægjulegt og árangursríkt og hægt er. Þróttur hefur ákveðna stefnu varðandi einelti, jafnrétti og forvarnarmál. Lögð er rík áhersla á að foreldrar hafi strax samband við viðeigandi aðila ef einhver atriði koma upp hvað varðar þetta eða samskipti við þjálfara, iðkendur eða hvaðeina annað sem foreldrar eru óánægðir með. Yfirlit um hvert á að leita kemur fram undir kaflanum um samskipti innan félagsins.

 

Iðkandi hættir

Æfingatímabilið skiptist í þrjár annir, haustönn 1. okt. – 20. des, vetrarönn 5. jan.- 31. mars og sumarönn 1. apríl – 31. ágúst.

Aðeins er hægt að skrá iðkendur úr greinum á annarskiptum. Forráðamaður þarf að láta framkvæmdarstjóra vita áður en tímabilinu er lokið að iðkandi hyggist hætta að æfa. Það er mikilvægt að það dragist ekki því laun þjálfara eru m.a. greidd eftir fjölda iðkenda hverju sinni.

Hlutverk og skyldur foreldra

Hlutverk foreldra er afar mikið sérstaklega hjá yngstu flokkunum. Það er grundvallaratriði að börnin okkar skemmti sér vel og hafi gaman af íþróttum. Áhersla á afreksmannaíþróttir eykst eftir því sem ofar dregur en í yngstu flokkunum má aldrei vera þrýstingur á að stunda íþróttir aðeins til að ná árangri. Ánægjan verður að koma fyrst á þessum árum, afreksmannahugsun kemur eftir því sem iðkendur verða eldri.

Foreldrar geta aðstoðað við starf félagsins og flokkanna á margvíslegan hátt. Það er hægt að starfa í foreldrafélagi, starfa sem liðstjóri eða fararstjóri á mótum, vinna á mótum sem Þróttur heldur, vinna að fjáröflun o.s.frv. Þessi verkefni eiga það öll sameiginlegt að gefa mikið af sér á sama tíma og þau styðja við starf félagsins og möguleika þess til að gera betur við iðkendur, börnin okkar.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

 • Berum virðingu fyrir starfi þjálfara og leyfum þeim að sinna því.
 • Gagnrýnum aldrei þjálfara þannig að iðkendur heyri til.
 • Hvetjum liðið á jákvæðan hátt en ekki en ekki einstaklinganna.
 • Mundu að það er barnið þitt sem er að taka þátt og keppa – Ekki þú.
 • Sýndu alltaf stuðning sama hvernig gengur – mundu að það byggir upp!
 • Reyndu að aðstoða við starfið eins og kostur er, það geta allir lagt sitt af mörkum.
 • Vertu sjálfum þér, börnunum og félaginu til sóma á leikjum og mótum

Samskipti innan félagsins

Ef óánægja er með störf þjálfara skal ræða fyrst við þjálfarann í von um að hægt verði að fá lausn á málinu. Ef það skilar ekki árangri skal leita til yfirþjálfara eða framkvæmdarstóra sem reynir að leysa málin. Ef málin leysast ekki fara framkvæmdarstjóri eða yfirþjálfari með þau á borð stjórnar UMFÞ.

Ef upp kemur einelti eða vandamál í samskiptum við iðkendur þarf að tala við þjálfara flokksins. Ef það skilar ekki árangri þá er að leita til yfirþjálfara eða framkvæmdarstóra. Nánar um einelti er í siðareglum UMFÞ

Ef upp koma spurningar varðandi greiðslu æfingagjalda skal leita fyrst til framkvæmdarstóra.

Ef erfiðleikar eru varðandi greiðslu æfingagjalda skal leita til framkvæmdarstjóra til að semja um greiðslu. Ef forráðamanni er ómögulegt að greiða æfingagjöld fyrir barn sitt er bent á félagsþjónustu Sandgerðis, Garðs og Voga sem geta e.t.v. aðstoðað. Iðkendum er ekki vísað frá vegna tímabundinna erfiðleika með greiðslur.

Hver gerir hvað hjá Þrótti?

Verkaskipting hjá félaginu tekur nokkuð mið af því að mikið starf er unnið af sjálfboðaliðum og starfsmenn eru fáir. Því er verkaskipting ekki eins afmörkuð og væri ef starfsmenn væru fleiri. Erfitt er því að setja niður tæmandi lista yfir verkaskiptingu og tryggja að ekki sé fleiri en einn aðili sem kemur að ákveðnum lið(um). Gróft til tekið má skipta verkum niður á eftirfarandi hátt:

Framkvæmdastjóri: Sér um daglegan rekstur og dagleg samskipti varðandi fjármál.  Situr stjórnarfundi og er tengiliður vegna mála sem eru tekin fyrir þar. Tengiliður við skóla, umsjón með heimasíðu.

Yfirþjálfari: Tengiliður við þjálfara, sér um breytingar leikja, fagleg stjórnun þjálfunar og ber ábyrgð á æfingaáætlunum, tryggir að aðstaða og þjálfun sé í samræmi við stefnu félagsins.

Stjórn: Fer með æðsta vald í félaginu. Vinnur að stefnumótun og ráðningu þjálfara, yfirþjálfara og framkvæmdastjóra. Í stjórn eru aðilar sem eru sérstakir tengiliðir greina sem iðkaðar eru hjá UMFÞ og tengiliður við foreldrafélag.

Foreldrafélag: Aðstoðar við skipulagningu á þátttöku flokka í mótum, setur upp félagslega viðburði, vinnur að fjáröflunum fyrir flokka varðandi mótaþátttöku, heldur foreldrafundi með þjálfara og foreldrum reglulega til að skipuleggja viðburði og mót ásamt því að taka fyrir atriði í starfi flokks ef þarf.

Að starfa innan félagsins

Mikill fjöldi foreldra vinnur fyrir félagið annað hvort einstakan flokk, á einstöku móti eða innan flokksráða eða annarra stofnana félagsins. Þetta starf er félaginu og iðkendum gríðarlega mikilvægt og grunnur að því starfi sem unnið er innan Þróttar.

Eins og áður kom fram eru nokkrar leiðir fyrir foreldra að starfa innan félagsins:

 • Vinna að fjáröflun eða félagslegum viðburði: Yfirleitt er haldinn fundur vegna skipulagningar slíks þar sem auglýst er eftir foreldrum til að starfa að þessu. Ef þú getur ekki mætt á fundinn getur þú sent póst á foreldraráðið. Yfirleitt er um afmarkað starf og tíma að ræða t.d. starfa í veitingasölu, hreinsun, afhenda fjáröflunarvörur o.s.frv.
 • Vera liðsstjóri/fararstjóri á móti: Hægt er að sjá hér að neðan í hverju starfið felst. Sama gildir um þetta og fjáröflun eða félagslega viðburði, haldinn er fundur þar sem hægt er að skrá sig eða senda á foreldraráð ef þú ert tilbúin(n) að starfa við þetta.
 • Starfa í stjórn foreldrafélags UMFÞ. Stjórn foreldrafélags er skipað á aðalfundi að vori. Stjórnin heldur utanum starf foreldra, það er ekki þar með sagt að foreldraráð geri allt sjálft heldur fær það gjarnan fleiri til aðstoðar við skipulagningu. Stór þáttur í að starfa í stjórn foreldrafélagsins er að virkja aðra foreldra í starfinu.

 

Þátttaka á mótum

Stór hluti af starfi flokkanna er þátttaka á mótum. Þessi mót eru allt frá því að vera 2-3 klukkustunda löng upp í það að vera 4 daga löng og fela í sér gistingu. Mismunandi er fyrir hvern flokk hvernig þessu er háttað og miðast eftirfarandi upplýsingar nokkuð við knattspyrnudeild.

Fyrir hvert lengra mót er ákveðinn undirbúningur sem þarf að eiga sér stað. Nokkur atriði sem vinna þarf að eru:

 • Skipa fararstjóra sem stýrir undirbúningi fyrir mótið. Á mótsstað er fararstjóri tengiliður við mótshaldara, situr fararstjórafundi þar sem farið er yfir dagskrá móts, breytingar og önnur atriði sem upp koma.
 • Það þarf að fá foreldra til að vera liðsstjóra og er fjöldi mismunandi eftir aldri iðkenda. Í yngstu flokkunum eru vanalega 2 foreldrar alltaf með hverju liði. Liðsstjórar fylgja liðum meðan á keppni stendur og sjá um að mætt sé á réttum tíma í leiki, í mat osfrv.
 • Matarnefnd undirbýr mat/nesti á mótinu. Mismunandi er eftir mótum hversu mikið þarf að útvega, þetta er allt frá því að útbúa nesti fyrir daginn og kvöldhressingu til þess að útdeila nesti sem er innifalið á mótum. Nefndin sér einnig um að útvega foreldra til að aðstoða við að útbúa nesti/kvöldhressingu. Einnig sér nefndin um að útvega hluti eins og samlokugrill, kælitöskur, brúsa og slíkt.
 • Ef um kostnaðarsamt mót er að ræða og foreldrafélag ákveður að farið verði í fjáröflun er hægt að skipa fjáröflunarnefnd sem sér um að ákveða hvað gert verði til fjáröflunar. Nefndin sér um eða fær aðila til að útdeila vörum sem seldar eru, tekur móti greiðslum og heldur utan um fjáröflunarreikning sem er reikningur fyrir hvern iðkanda UMFÞ.
 • Gott er að taka með fána Þróttar og er hægt að nálgast hann hjá framkvæmdarstjóra.
 • Varðandi rútuferðir þá hefur Þróttur aðganga að skólabíl sveitarfélagsins. Framkvæmdastjóri er tengiliður vegna skólabíls.
 • Gott er að athuga hvort eitthvert/einhver foreldri í hópnum hafi möguleika á að komast í þvottavél/þurrkara á keppnisstað. Ef mikil rigning er gott að geta komist í slíkt.
 • Athuga með kælimöguleika á keppnisstað varðandi mat.
 • Hafa sjúkrakassa með og einnig upplýsingar um ofnæmi, óþol og slíkt hjá iðkendum. Það er á ábyrgð foreldra að láta liðsstjóra/fararstjóra fá slíkt.

 

Hægt er að notast við meðfylgjandi minnislista fyrir hvað fara þarf með í keppnisferðir. Að sjálfsögðu er nokkur munur á þessu eftir aldri keppenda en grunnurinn er sá sami.

 

Minnislisti fyrir foreldra í keppnisferðum

 • Utanyfirfatnað til skiptanna
 • Nærfatnað 4-5 stk
 • 4-5 pör af sokkum
 • Regngalla, merktan Þrótti ef til er
 • Flíspeysu
 • Handklæði
 • Tannbursta, tannkrem
 • Sundföt
 • Handklæði
 • Venjulega skó ( ekki takkaskó )
 • Vettlinga, húfu
 • Bakpoka ( til að geyma sundföt, smálegt dót )
 • Spil, bækur, blöð
 • Dýnu
 • Sæng eða svefnpoka
 • Kodda
 • Vatnsbrúsa
 • Fótbolti: takkaskór, legghlýfar.

Munið að merkja alla hluti með nafni iðkanda/síma og látið krakkana vera með þegar pakkað svo þau viti hvar hlutirnir eru og hvað var tekið með!

 

Færslusafn